Eru ekki allir að undirbúa sumarið?
Fjölbreytt dagskrá framundan í Geysi í sumar og sumardagurinn fyrsti næstkomandi fimmtudag. Því miður verður lokað í Geysi, en margt við að vera um allan bæ í tilefni dagsins og viðbúið að félagar taki sig saman til þess að gleðjast í blíðunni.
Næsti stórviðburður í Geysi er heilsuvikan 4. til 8. júní og Geysisdagurinn toppar svo vikuna þann 9. júní. Unnið er að undirbúningi og gengur það mjög vel og útlit fyrir mjög fjölbreytta dagskrá að vanda.
Í ágúst verður svo Reykjavíkurmaraþonið þar sem fólk er nú þegar farið að skrá sig.
Tóta er búin að skrá sig í skemmtiskokkið, en er tilbúin í að breyta því í 10 km hlaup ef áheitin hrannast (sjá hér) inn. Er hér skorað á alla að koma henni í hlaupið.
Við höldum svo upp á nítján ára afmæli klúbbsins 6. september.
Svo fer ferðafélag klúbbsins til Tenerife 8. september. Eins og nærri má geta verður margt annað á döfinni og Geysisfélagar munu ekki láta sitt eftir liggja að fara með jákvæðni inn í sumarið.
Gönguhópurinn Harkan ætlar að leggja í hann í hálftíma göngu á morgun þriðjudaginn 17. apríl kl. 10:30 og verður hópurinn virkur daglega í sumar.

Klúbburinn Geysir óskar félögum, vinum og velunnurum gleðilegs sumars með þökk fyrir framúrskarandi samstarf í vetur.