Hugmyndafræðin

Klúbburinn Geysir starfar eftir hugmyndafræði Fountain House sem byggir á markvissri uppbyggingu á hæfileikum og getu einstaklingsins.

Við trúum því að með því að gefa hverjum félaga tækifæri á því að nýta sínar sterkustu hliðar, séum við að þjálfa viðkomandi til fjölbreyttrar þátttöku í samfélaginu.

Hið innra starf byggir á gagnkvæmum stuðningi og virðingu fyrir öðrum. Að hjálpa og aðstoða aðra felur í sér sjálfshjálp.

Að hafa stjórn og taka ábyrgð á eigin lífi er grunnþörf í lífi hvers manns. Ef þessari þörf er á einhern hátt raskað til dæmis vegna geðsjúkdóms er hætt við að trú á eigin getu hrynji og sjálfsvirðingin bíði hnekki.

Þess vegna leggjum við áherslu á jákvæða athygli og horfum á styrkleika, í stað þess að einblína á sjúkdóminn og þann stimpil sem honum fylgir.

Í starfi Klúbbsins Geysis eru engar kvaðir lagðar á félaga umfram það sem hver og einn er tilbúinn að gangast undir. Starf klúbbsins byggir meðal annars á umhyggju, og eflingu félagsfærni, þess vegna er þörf fyrir hvern og einn félaga.

Er Klúbburinn Geysir staður sem hentar þér?

Þegar þú gengur í klúbbinn gleðjumst við yfir þátttöku þinni. Félagsleg einangrun þarf ekki lengur að valda vanlíðan, því í klúbbnum átt þú félaga sem láta sér annt um velferð þína. Þú hefur allt að vinna. Taktu fyrsta skrefið í átt til betra lífs. Í Klúbbnum Geysi leggur hver og einn sitt af mörkum eftir getu og vilja. Allir hafa eitthvað að gefa og hver félagi er mikilvægur í starfsemi okkar. Hugsanlega getur tilvera þín og líðan breyst til betri vegar. Þú skiptir máli!