Á annað hundarð manns heimsóttu Geysi á Geysisdaginn
Þrátt fyrir frekar blautt og kalsasamt veður á Geysisdaginn 9. júní sl. aftraði það ekki fólki frá því að kíkja í klúbbinn. Tónlistaratriði voru þar af leiðandi flutt inn í klúbbinn en stemningin var ekki síðri fyrir það. Örþonið var þó haldið utandyra og var þátttaka í því með ágætum. Örþonið að þessu sinni ræsti Guðrún Ásmundsdóttir leikkona og nýbakaður heiðurverðlaunagrímuhafi. Hún gerði stormandi lukku eins og henni einni er lagið. Meðal þeirra sem komu fram með tónlistaratriði voru hluti Karlakórsins fóstbræðra, Soffí Björg söng og lék á gítar, Friðrik Örn söng líka með undirleik á tölvu og Benni flutti Tótu Ósk afmælisdikt við eigin undirleik. Flóamarkaðurinn var á sínum stað og hefur sjaldan verið eins glæsilegur. Fékk margur þar góða flík og skrautmuni sem gleðja augað. Veitingar voru í boði sem góðir og öflugir félagar reiddu fram með gleði og bros í sálinni. Viljum nota þetta tækifæri til þess að þakka öllum sem lögðu hönd á plóg svo dagurinn mætti verða sá góði gleðigjafi og uppbyggjandi fyrir þá sem glíma við geðræn veikindi og aðstandendur þeirra.

Hluti þeirra sem þátt tóku í ÖRÞONINU 2018