Farið í Listasafn Reykjavíkur fimmtudaginn 11. janúar 2018
Félagsleg dagskrá byrjar með glæsibrag á nýju ári. Nú þegar hefur verið farið á útsölur í Kringlunni og nú er ferðinni heitið í Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsinu. Að vanda er mikið um að vera í safninu. Lagt af stað frá Klúbbnum Geysi kl. 15.00.
Á sýningunni Stór-Ísland eru sýnd verk sjö listamanna, það eru Anna Hallin, Claudia Hausfeld, Jeannette Castioni, Joris Rademaker, Rebecca Erin Moran, Sari Cedergren og Theresa Himmer. Listamennirnir koma frá Svíþjóð, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi, Bandaríkjunum, Finnlandi og Danmörku en hafa búið og starfað á Íslandi um lengri eða skemmri tíma.
Anna Rún Tryggvadóttir er 31. listamaðurinn sem sýnir í sýningaröð D-salar en markmið sýningaraðarinnar er að gefa efnilegum listamönnum tækifæri til að vinna innan veggja safnsins og beina athygli gesta að nýjum og áhugaverðum hræringum innan listheimsins. Á árinu 2017 eru áætlaðar fjórar sýningar í sýningaröðinni.
Hin myndræna veröld Errós sem fæst við fjölfjöldun og ofgnótt mynda er afrakstur yfir fimmtíu ára þróunar. Hún er svar við endalausum straumi hluta, upplýsinga og mynda fjölmiðla- og neyslusamfélagsins. Þar er meðal annars að finna hin kunnu „Víðáttuverk“ listamannsins, eins konar landslagsmyndir samsettar úr aragrúa mynda af sama viðfangsefni.
Í hlutarins eðli – skissa að íslenskri samtímalistasögu [1.0]
Efnisheimurinn er viðfangsefni nokkurra valinna verka úr safneign Listasafns Reykjavíkur. Náttúrufyrirbæri, manngerðir hlutir og ýmisskonar efni liggja til grundvallar með tilliti til eiginleika, eðlis, merkingar og gildis.
Sýningin er hluti nokkurs konar skissuvinnu Listasafns Reykjavíkur að íslenskri samtímalistasögu. Hugmyndin er að safnið haldi áfram að velja verk úr safneigninni og setja í samhengi tilraunar til að skrifa listasöguna jafnóðum.
Við innkaup listaverka í safnið á sér stað visst val sem endurspeglar fjölbreytileika listsköpunar hverju sinni en hér er reynt að greina enn frekar þær sameiginlegu áherslur sem er að finna í deiglu samtímans.
Hvað einkennir íslenska myndlist á 21. öld?
Hver eru viðfangsefni listamanna, aðferðir, efni og áskoranir?