Ferð að Gljúfrasteini.
Síðastliðinn laugardag heimsóttu félagar og starfsmaður Klúbbsins Geysis Gljúfrastein sem var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness og fjölskyldu hans um hálfrar aldar skeið.
Íslenska ríkið keypti húsið árið 2002, þegar öld var liðin frá fæðingu skáldsins, og tveimur árum síðar var það opnað almenningi.
Húsið er safn Halldórs Kiljans Laxness þar sem heimili og vinnustaður hans eru látin haldast óbreytt. Á safninu er í boði hljóðleiðsögn fyrir þá sem heimsækja safnið.
Stærstu vistarverurnar eru stór stofa á jarðhæð og skrifstofa Halldórs á annarri hæð.
Þar er bókasafn hans varðveitt svo og vinnupúltið sem hann stóð við og skrifaði.
Þeir sem heimsóttu safnið voru sammála að ferðin hefði verið bæði skemmtileg og fróðleg.