Góður andi og nóg um að vera
Sigrún Jóhannsdóttir minnist 10 ára sem félagi í Geysi.
Grein birtist í 4. tölublaði Litla-Hvers 2011.
Á þessum tímamótum vil ég segja frá hvaða þýðingu góða starfsemi Klúbbsins hefur haft og hefur enn fyrir mig um leið og ég minni á allan þann fjölbreytileika sem Klúbburinn býður upp á. Ég heyrði fyrst minnst á Klúbbinn í Geðhjálp fyrir 10 árum og ákvað þá að kynna mér málið. Þá var starfsemin í húsi að Ægisgötu 7. Ég vissi nú ekki alveg þá hvaða gagn ég gat gert en hringdi og sagðist getað unnið á tölvu og aðstoðað við matargerð og frágang. Þessu var vel tekið og mætti ég næsta dag. Það heillaði mig strax að félagar og starfsmenn vinna á jafningjagrundvelli. Félagi og iðjuþjálfanemi kynntu mér hugmyndafræðina og starfsemi Klúbbsins og fann ég mitt verksvið aðallega í Eldhúsdeildinni. Þarna leið mér vel, ég fann að ég gerði gagn og kynntist mörgu góðu fólki.
Þegar við fluttum upp í Skipholt 29 (haustið 2002) stækkaði og efldist Klúbburinn með tímanum. Það reyndi á útsjónarsemi allra við að endurhanna húsið svo útlit Klúbbhússins fengi þá ímynd sem við öll gátum verið stolt af. Í dag hefur Klúbburinn tvisvar fengið þriggja ára vottun frá ICCD ( skrifstofu Alþjóðlegu Klúbbhúsahreyfingarinnar) fyrir góða frammistöðu.
Félagar og starfsfólk halda alltaf húsfund einu sinni í viku þar sem öll málefni Klúbbsins eru rædd. Málefni er varða skrifstofu– eldhúss– og viðhaldsdeild og skrifstofu– og menntadeild eru oftast ofarlega á baugi. Svo þarf alltaf að ákveða skemmtilega félagslega dagskrá í hverjum mánuði. Það hefur mikla þýðingu að í Geysi er vinnumiðuð starfsemi. Öll verk sem unnin eru í Geysi eru jafn verðug. RTR (ráðning til reynslu) er mjög hentugt fyrir þau sem eru að feta sín fótspor aftur á vinnumarkaðnum. Starfsmaður þjálfar þá félagann og þegar hann hefur lært starfið hefur hann það í nokkra mánuði. En starfið er eign Klúbbsins og fá fleiri félagar að sækja um það þegar það losnar.
Þegar ég lít til baka yfir þau tíu ár sem ég hef verið félagi í Klúbbnum Geysi er ég mjög þakklát. Sem félagi hef ég fengið góð tímabil, verið stabíl og getað stundað nám og vinnu. Það er alltaf góður andi í Geysi og nóg um að vera. Klúbburinn stendur ávallt fyrir hugsjón sinni sem brú út í samfélagið fyrir fólk sem á við eða hefur átt við geðræn veikindi. Ég vil þakka starfsfólki sem ég hef fengið að kynnast og félögum og vona ég að klúbburinn muni halda áfram að dafna og eiga bjarta framtíð um ókomin ár.