Gönguhópurinn leggur í hann!
Sumarið er að koma og félagar í gönguhópnum búnir að reima á sig skóna. Hópurinn hélt stuttan fund föstudaginn 27. apríl þar sem við ræddum fyrirkomulagið á gönguferðum í sumar. Gengið verður á mánudögum eða þriðjudögum eftir veðri. Til að byrja með ætlum við að leggja af stað frá Geysi klukkan 16:00 og ganga létt í lundu í allar áttir.
Fyrsta gönguferðin verður upp í Öskjuhlíð 13. eða 14. apríl. Þeir sem vilja taka styttra rölt geta hitt okkur upp við Perlu klukkan 16:30. Þannig getum við vonandi fengið sem flesta til að taka þátt og byggja rólega upp þrek til lengri göngu.
Við miðum við að hafa fyrstu göngutúrana í næsta nágrenni við Geysi. Hugmyndir komu fram á fundinum um að ganga í kringum Reykjavíkurtjörn, meðfram Sæbrautinni og einnig eru margar skemmtilegar gönguleiðir í Laugardalnum. Hægt verður að taka lengri eða styttri göngur eins og í Öskjuhlíðargöngunni. Við miðum við að allir geti tekið þátt og alltaf verði hægt að taka strætó til að komast á milli.
Gönguhópurinn er með facebook grúppu þar sem við auglýsum betur hverja göngu fyrir sig. Þeir sem vilja láta bæta sér inn í grúppuna geta sent vinabeiðni á Kristinn Heidar eða Adalheidur Davidsdottir. Eins munum við láta vita hér á heimasíðu Geysis í viðburðadagatalinu hvort gengið verður á mánudegi eða þriðjudegi. Það verður ákveðið í síðasta lagi á föstudegi fyrir göngu.
Hlökkum til að sjá sem flesta með bros á vör á göngu í sumar.