Júní er fallegastur mánaða
Nú er kominn nýr mánuður með ný og jákvæð fyrirheit. Þó að vindar blási örlítið svalari en margan rekur minni til, látum við það ekki á okkur fá og tökum því með jafnaðargeði. Í farvatninu er árlegur Geysisdagur sem nú ber uppá 13. júní með tilheyrandi skemmtan og uppákomum. Vikuna þar á undan er heilsuvikan, sem að þessu sinni er stútfull af gestakokkum og fyrirlesurum um hin aðkiljanlegustu undur geðheilsu og næringar. Þjóðhátíðardagurinn er svo þann 17. með fánum og pylsum um allan bæ, því miður er lokað þann dag í klúbbnum, en þeim mun frjálsari verðum við í skrúð- og fagnaðargöngum dagsins. Svo verður kvenréttindadagurinn 19. júní og 24. júní ætlum við að velta okkur upp úr dögginni á Jónsmessunni. Margt skemmtilegt framundan og hægt að láta sig hlakka til.