Laufabrauð og lítil jól
Miklar og skemmtilegar hefðir hafa áunnið sér sess í jólaundirbúningi Geysis gegnum árin. Þar má meðal annars nefna laufabrauðsskurð og svo litlu jóin. Minnum á að laufabrauðsskurðurinn verður fimmtudaginn 15. desember kl. 14.00 til 15.00. Þeir sem geta mætt með laufabrauðsjárn, eru beðnir um að kippa þeim með sér. Nú og öll sérfræðihjálp sem félagar búa yfir er mjög svo kærkomin.
Svo eru það blessuð litlu jólin. Þau verða 17. desember frá kl. 10.00 til 14.00. Jólahátíðarhangikjöt verður á borðum með hefðbundnu meðlæti. Að vanda verður jólagjafapakkaleikurinn í hávegum hafður, þar sem félagar mæta með gjöf en minnt á að gjöfin á ekki að kosta mikið. Þannig leggjum við öll saman í púkk. Jólakortin verða lesin og við fáum góðan gest til þess að fræða okkur um heimspekilegar hliðar jólagæsku og fögnuðinn í hjörtunum. Að sjálfsögðu verða svo leikin jólalög og skapað umhverfi kærleika og jólanærveru. Verð á litlu jólin er kr. 2000 og er nauðsynlegt að borga staðfestingargjald kr. 1000 fyrir kl. 16.00 fimmtudaginn 15. desember.

Krúttlegur dans í kringum jólatré.