Mottumars er kominn!
Það er kominn mars og vorið er á næsta leyti. Hinsvegar er núna, eins og undanfarin ár, haldinn mottumars. Mottumars er verkefni á vegum Krabbameinsfélags Íslands til að vekja karlmenn til vitundar um krabbamein í blöðruhálskirtli. Krabbamein er andstyggilegur, skæður og umfram allt banvænn sjúkdómur og ber að taka á þessu meini, bæði með rannsóknum og með framtaki fólks. Þetta er ekkert grín, en við verðum að vera jákvæð í nálgun okkar á vandanum. Við vitum að krabbamein er ekki smitsjúkdómur og það er hægt að “lækna” það á fyrstu stigum með meðferð af einhverju tagi. Eina sem talið er vera orsök krabbameins, af hvaða tagi sem er, er það að þessi sjúkdómur gæti verið lífsstílstengdur. Reykingar hafa verið taldar orsökin að lungnakrabbameini, en það gæti of mikið af grillmat einnig verið er mér sagt. Það er miður þar sem grillmatur er svo góður og það fer bráðum að koma tíminn fyrir útigrillin, en hófið er best í því eins og í öllum öðrum. Samt er ekkert sannað ennþá, en við erum samt sem áður minnt á að borða hollt og lifa heilbrigt til að forðast eða minnka líkurnar á veikindum og sjúkdómum. Aftur að mottumars: Endilega styrkjum þetta góða málefni og reyndar eigum við að styðja góð málefni á öllum tímum, hvort heldur með peningagjöfum eða andlegum stuðningi og hjálp og aðstoð. Þeir sem vilja safna yfirvaraskeggi (mottu) í tilefni af þessu stuðningsverkefni eru hvattir til þess. Hinsvegar hafa komið upp hugmyndir hér í Klúbbinum Geysi um alskeggsapríl og mæðumaí, en þær hugmyndir hafa ekki hlotið brautargengi ennþá. Að lokum: Þetta tengist allt því að við eigum að vera góð hvert við annað á öllum stundum þar sem kærleikurinn sigrar allt!