Öflug ferð í Sjóminjasafnið
Fimmtudaginn 4. mars fyrir réttri viku hélt föngulegur hópur Geysisfélaga í Sjóminjasafnið í Reykjavík. Þessi heimsókn er liður í samstarfi við Borgarsögusafn Reykjavíkur, en ein safnaferð er fyrirhuguð í hverjum mánuði fram í júní. Sjóminjasafnið er mjög áhugavert safn og grunnsýningin sem nú er þar uppi ber yfirskriftana “Fiskur og fólk – sjósókn í 150 ár” þar sem farið er yfir söguna í tímalínu. Hún fjallar um sögu fiskveiða á Íslandi og við lok sýningarinnar er fiskurinn kominn á diskinn. Þar gefst gestum færi á að setja sjálfir saman girnilegar fiskuppskriftir úr alls konar innihaldsefnum í tölvuleik sem heitir: Verði þér að góðu!
Hópurinn fékk mjög fróðlega og áhugaverða leiðsögn um sýninguna frá Hlín Gylfadóttur og Hróðnýju Kristínar Krisjáns sem miðluðu þekkingu sinni fúslega. Við þökkum fyrir skemmtilega heimsókn og hlökkum til næstu heimsóknar sem verður 8. apríl kl.15.00 en þá verður haldið í Hafnarhúsið á sýningu ljósmyndarans Ragnars Axelssonar. Hér fylgja nokkrar myndir frá heimsókninni. Minnum svo á Fly over Canada sem farið verður í fimmtudaginn 11. mars. Lagt af stað frá klúbbnum 15.45.