Ráðning til reynslu

Atvinnutækifæri.

Frá því Klúbburinn Geysir hóf starfsemi hefur hann verið vettvangur starfsleitar fyrir félaga sína. Þau úrræði sem klúbburinn hefur boðið félögum sínum hefur verið atvinna með stuðningi, sjálfstæð ráðning og ráðning til reynslu – RTR.

Ráðning til reynslu (RTR):

Í Geysi er atvinnu og menntadeild, ATOM, sem starfar jafnhliða skrifstofudeildinni, þar sem félagar og starfsmenn vinna að því að ná tengslum við vinnuveitendur. Ráðning til reynslu veitir félögum tækifæri til þátttöku á almennum vinnumarkaði.

RTR eru hlutastörf og tímatakmörkuð, að jafnaði 15-20 tímar á viku, í 6, 9 eða 12 mánuði. Þá tekur annar félagi við starfinu. Klúbburinn sér um að tala við atvinnurekendur, kynna fyrir þeim hvað felst í ráðningu til reynslu og útvega störf fyrir félaga.

Starfsmaður klúbbsins kynnir sér starfið og þjálfar viðkomandi félaga, vinnuveitanda að kostnaðarlausu. Að þjálfun lokinni fer félaginn á launaskrá hjá vinnuveitandanum.

Komi sú staða upp að félagi geti ekki mætt í vinnu sér klúbburinn um að útvega starfskraft í hans stað, hvort sem það er annar félagi eða starfsmaður klúbbsins. Vinnuveitandanum er þannig tryggt 100% vinnuframlag.

Starfsmaður klúbbsins veitir bæði félaganum og vinnuveitandanum stuðning á meðan á ráðningu stendur og fylgist með gangi mála. Jákvætt er ef félagi sækir klúbbinn samhliða RTR.

RTR ráðningarfyrirkomulagið er nýtt hér á landi en hefur verið notað í 27 löndum víðs vegar um heim með mjög góðum árangri, bæði fyrir félaga klúbbhúsanna og atvinnurekendur.

Frá upphafi hafa um 50 félagar starfað í Ráðningu til Reynslu. Yfir 100 félagar stunda nú vinnu á almennum vinnumarkaði.

Störf í Ráðningu til reynslu á vegum Geysis: 

Þjónustumiðstöð Háaleitis og Laugardals: Skjalavarsla, undirbúningur funda, umsjón með kaffistofu og leikfangasafn. Vinnutími: 10:00-14:00.

Háskóli Reykjavíkur: Starfið felur í sér að sjá um kaffistöðvar skólans ásamt öðrum tilfallandi verkefnum. Vinnutími 11:00 til 14:00.

Bakkinn – Vöruhótel: Halda lyftarabrautum hreinum ásamt öðrum tilfallandi þrifum. Starfshlutfall er 37,5% og eru þetta tvö störf. Vinnutími 10:00 til 13:00 og 13:00 til 16:oo.

 

Atvinna með stuðningi og sjálfstæð ráðning:

Við sjálfstæða ráðningu leitar félagi í klúbbnum eftir vinnu á eigin vegum, að eigin frumkvæði og ábyrgð. Viðkomandi fær allan þann stuðning, sem klúbburinn getur veitt honum og hann leitar eftir. Slíkur stuðningur getur t.d. verið meðmæli og aðstoð við að fylla út umsóknir auk aðstoðar við að útbúa starfsferilsskrár og fara með félögum í atvinnuviðtöl. Sá sem byrjar í starfi er áfram félagi í klúbbnum og hefur alla möguleika á að njóta þeirra réttinda og skyldna sem vera hans í klúbbnum leggur honum á herðar.

Klúbburinn Geysir hefur átt gott samstarf við Vinnumálastofnun og AMS-atvinnu með stuðningi. Lögð er áhersla á að finna starf á almennum vinnumarkaði út frá áhuga og styrkleikum einstaklingsins.