Saga klúbbsins

 

Klúbburinn Geysir

Ægisgata

Frá Ægisgötunni

Undirbúningur að stofnun Geysis hófst árið 1997 og var klúbburinn formlega stofnaður haustið 1999. Starfseminn hófst í tveimur litlum herbergjum að Hátúni 10 og fljótlega myndaðist kjarni 10-15 félaga. Í janúar árið 2000 bauðst klúbbnum 200 fermetra húsnæði að Ægisgötu 7 og var það leigt af Reykjavíkurborg. Í október árið 2001 stóð Kiwanishreyfingin fyrir landssöfnun í þágu geðsjúkra og fékk Geysir 10 milljónir í sinn hlut, það gerði klúbbnum kleift að kaupa húsnæði undir starfsemina að Skipholti 29 í félagi við Hússjóð Öryrkjabandalags Íslands. Um áramótin 2017 – 2018 voru 430 skráðir félagar í klúbbnum.

Klúbburinn Geysir er sjálfseignarstofnun með sérstakri stjórn. Meginhluti rekstrarfjár klúbbsins kemur frá Vinnumálastofnun sem tilheyrir Velferðarráðuneytinu. Einnig er reksturinn fjármagnaður af Reykjavíkurborg, frjálsum framlögum og styrkjum fyrirtækja og sjóða. Að auki er leitað styrkja vegna sérverkefna.

Klúbburinn starfar eftir hugmyndafræði Fountain House og er tilgangur hans að virkja félaga Klúbbsins til þátttöku í samfélaginu. Er það gert með því að halda uppi vinnumiðuðum degi fyrir félaga klúbbsins með fjölbreyttum verkefnum sem öll miðast að rekstri klúbbsins sjálfs.Hið innra starf byggir á gagnkvæmum stuðningi og virðingu fyrir öðrum. Að hjálpa og aðstoða aðra felur í sér sjálfshjálp. Í starfi Klúbbsins Geysis eru engar kvaðir lagðar á félaga umfram það sem hver og einn er tilbúinn að gangast undir. Starf klúbbsins byggir meðal annars á umhyggju, og eflingu félagsfærni, þess vegna er þörf fyrir hvern og einn félaga. Við trúum því að með því að gefa hverjum félaga tækifæri á því að nýta sínar sterkustu hliðar, séum við að þjálfa viðkomandi til fjölbreyttrar þátttöku í samfélaginu. Félagarnir fá einnig aðstoð við húsnæðis- og atvinnuleit, stuðning vegna náms auk þess sem boðið er upp á félagslega dagskrá eftir vinnu dagsins alla fimmtudaga og einn laugardag í mánuði.
það fólk sem á eða hefur átt við geðræn veikindi að stríða geta orðið félagar í klúbbnum.

Er Klúbburinn Geysir staður sem hentar þér?

Þegar þú gengur í klúbbinn gleðjumst við yfir þátttöku þinni. Félagsleg einangrun þarf ekki lengur að valda vanlíðan, því í klúbbnum átt þú félaga sem láta sér annt um velferð þína. Þú hefur allt að vinna. Taktu fyrsta skrefið í átt til betra lífs. Í Klúbbnum Geysi leggur hver og einn sitt af mörkum eftir getu og vilja. Allir hafa eitthvað að gefa og hver félagi er mikilvægur í starfsemi okkar. Hugsanlega getur tilvera þín og líðan breyst til betri vegar. Þú skiptir máli!