Styrkur frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar undirritaður
Í gær fimmtudaginn 4. apríl var undirritaður samningur um fjárstuðning sem Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Styrktarfélag Klúbbsins Geysis hafa gert með sér til næstu þriggja ára. Styrkurinn er veglegur og sýnir að starfið sem fer fram í Klúbbnum Geysi er metið að fullu sem eitt af mikilvægustu endurhæfingar valkostum fyrir fólk með geðrænar áskoranir. Vegna mistaka dróst að undirrita samninginn og þurfti hann því að fara í “leiðréttingarferli” sem skilar nú góðum samningi sem aðilar máls eru mjög sáttir við. Það var Kristjana Gunnarsdóttir skriftsofustjóri hjá velferðarsviði sem undirritaði samninginn fyrir hönd Reykjavíkurborgar og Þórunn Ósk Sölvadóttir framkvæmdastjóri Styrktarfélags Klúbbsins Geysis sem skrifaði undir fyrir hönd klúbbsins. Í veitingadrifinni fjölmennri móttöku í klúbbnum fór undirritunin fram og henni fagnað innilega. Félagar, starfsfólk og stjórn Klúbbsins Geysis þakkar gott og gagnsætt samstarf vegna samningsins og hlakka til samstarfsins næstu þrjú árin.

Kristjana tv. og Þórunn Ósk th. undirrita samninginn